2022

Sjálfbærniskýrsla
Lífsferilsgreiningar og BREEAM
Vistvottun Kvistaborgar

Unnið er að vottun leikskólans Kvistaborg í Reykjavík en hann er einstaklega gott dæmi um hvernig orkunýting og kolefnisfótspor bygginga tengjast innbyrðis. Mannvit hefur umsjón með BREEAM vottuninni ásamt allri verkfræðihönnun, orku- og dagsbirtuútreikningum, LCA og LCC greiningum, flóðaáhættumati og áhættumati vegna loftslagsbreytinga. Á hönnunarstigi leikskólaverkefnisins var megináhersla lögð á einangrun glugga, útveggja og einangrun undir gólfhitakerfa til þess að skoða áhrifin á milli koltvíoxíðútlosunar og orkunýtingar. Til þess að leggja mat á áhrif þessara hönnunarbreytinga notast Mannvit við orkuhermunarhugbúnaðinn IDA ICE, en mat á umhverfisfótspori og kostnaði byggingarinnar yfir lífsferil hennar er greint með notkun OneClick LCA sem byggir á gagnagrunni fyrir efni sem hafa staðfesta umhverfisyfirlýsingu (EPD). 

Ljósmynd: Reykjavíkurborg

 

      

Vistvottun
Endurbætur á Seðlabankanum

Seðlabankinn vinnur að endurbótum á húsnæði sínu í miðborg Reykjavíkur. Mannvit hefur umsjón með BREEAM vottuninni ásamt allri verkfræðihönnun, orku- og dagsbirtuútreikningum, LCA og LCC greiningum. Endurbætur á húsnæði Seðlabankans snerust meðal annars um að núverandi þak yfir innigarði aðalbyggingarinnar væri fjarlægt og nýju glerþaki komið fyrir í meiri lofthæð til þess að rýma fyrir nýrri hæð. Í LCA greiningunni hafði CO2 sparnaðurinn verið metinn með því að endurnýta hluta af núverandi Gabbró flísum á ytri klæðningu sem innri veggklæðningu og gólfflísar. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að endurnotkun Gabbró flísanna dregur úr 8% af innbyggðri koltvísýringslosun sem tengist byggingarefnum, sem samsvarar 20t CO2-íg. 

 

  

Orkuskipti
Rafvæðing Steinullar

Sandur til steinullarframleiðslu hefur verið þurrkaður með olíuknúnum tromluþurrkara frá gangsetningu verksmiðjunnar Steinullar hf. á Sauðárkróki.
Mannvit sótti um styrk til Orkusjóðs fyrir hönd Steinullar fyrir rafvæðingu þurrkunar á sandi. Um 20 milljóna króna styrkur hlaust fyrir framkvæmdinni og nú vinnur Mannvit að forhönnun verkefnisins. Í dag eru um 150.000 - 200.000 lítrar af olíu notaðir á ári við þurrkun sands og má því gera ráð fyrir að kolefnislosun Steinullar minnki um u.þ.b. 400 tonn af CO2 á ári eftir þessa breytingu. 

 

         

Nýsköpun í umhverfismálum
Niðurdæling á gasi á Nesjavöllum

Tilraunastöð til niðurdælingar á kol­díoxíði (CO2) og brenni­steinsvetni (H2S) frá Nesja­valla­virkj­un er verkefni á vegum Car­bfix. Í því felst kol­efn­is­föng­un­ og -förg­un­ á gasi frá Nesjavallavirkjun fyrir hönd Orku nátt­úr­unn­ar. Hlutverk Mannvits var m.a. fullnaðarhönnun, gerð vinnuteikninga, verklýsinga, innkaupagagna, eftirlit, forritun og stjórnkerfisprófanir.

Til­rauna­stöðin fang­ar allt H2S sem fer í gegn­um hana og allt að 98% af CO2. Stöðin af­kast­ar um 3.000 tonn­um af CO2 á ári og um 1.000 tonn­um af H2S, sem er u.þ.b. 20% af los­un virkj­un­ar­inn­ar. CO2 er leyst í vatni í stöðinni og vatninu svo dælt niður í basalt­berg­lög um niðurdæl­ing­ar­hol­ur. CO2 sem dælt er niður með vatninu verður að steini í jarðlögum við virkjunina. Eitt af markmiðum verkefnisins er að leggja grunn að fullri hreinsun á CO2 og H2S frá Nesjavallavirkjun með varanlegri hreinsistöð. Áætlað er að hún verði komin í notkun árið 2030 ásamt því að auka skilvirkni Carbfix-tækninnar. Tilraunastöðin sem var þróuð og smíðuð fyrir verkefnið er færanleg og því mögulegt að nýta hana í önnur tilraunaverkefni. 

 

    

Bætt nýting
Kolefnisparnaður rúðuviðgerða Sjóvá

Framrúðuverkefni Sjóvá sneri að því að hvetja viðskiptavini og verkstæði til þess að láta gera við framrúður í stað þess að skipta þeim út sé þess kostur. Mannvit reiknaði út kolefnisspor framrúðuskipta í samanburði við viðgerð á framrúðu og var niðurstaðan sú að útskipti framrúðu hefur í för með sér um 24.000 sinnum meiri losun en viðgerð á framrúðu. Átak í að auka hlutfall framrúðuviðgerða hefur staðið yfir frá árinu 2020 og skilaði það samdrætti í áætlaðri losun sem nemur um 15 tonnum kolefnisígilda á árunum 2020 og 2021. Sjóvá hlaut verðlaunin Umhverfisframtak ársins 2022 fyrir fjarskoðunarlausnina Innsýn og fyrir það að vekja athygli viðskiptavina á umhverfislegum ávinningi sem fæst með framrúðuviðgerð í stað framrúðuskipta.