Ávarp forstjóra

Örn Guðmundsson

Förum vel með

Árið 2022 gekk vel hjá Mannviti og við erum stolt af þeim árangri sem fyrirtækið náði. Framgangur varðandi sjálfbærnismarkmið okkar hefur verið góður og reksturinn haldist stöðugur. Við setjum umhverfismál og samfélagslega ábyrgð í öndvegi og störfum eftir skýrri stefnu þar sem áhersla er lögð á að fara vel með auðlindir okkar og að starfsemi fyrirtækisins hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið. Það er þó að mörgu að huga þegar kemur að því að ná árangri í sjálfbærnismálum; stefnumótun, áætlanagerð og eftirfylgni skipta höfuðmáli og það að setja sér skýr og mælanleg markmið um hvaða árangurs er að vænta bæði í rekstri og þjónustu. 

Mannvit leggur sig fram við að nýta náttúruauðæfi á sjálfbæran hátt, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja áreiðanlegar og skilvirkar lausnir fyrir viðskiptavini sem skilar samfélagslegum ávinningi. Umhverfið okkar er stöðugt að breytast sem felur í sér spennandi tækifæri en jafnframt ógnir sem vert er að huga að. Við höfum náð að draga úr kolefnislosun fyrirtækisins í almennum rekstri undanfarin ár og var engin breyting þar á árið 2022. Þá er markmið okkar að auka enn frekar umsvifin hvað varðar endurnýjanlega orkukosti en Mannvit hefur leikið allstórt hlutverk á því sviði hér á landi. 

 

„Umhverfið okkar er stöðugt að breytast sem felur í sér spennandi tækifæri en jafnframt ógnir sem vert er að huga að.“

Við horfum björtum augum fram á veginn og höldum áfram að leggja hart að okkur við að draga úr áhrifum loftlagsbreytinga, bjóða upp á enn betri þjónustu við viðskiptavini og ekki síst veita starfsfólki okkar aukin tækifæri. Það er mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum í átt að settum markmiðum í umhverfismálum, félagsmálum og efnahagslífinu og við hverja aflraun eykst okkur ásmegin. Við höfum svo sannarlega metnað til þess að ná hámarks árangi á vegferð okkar til sjálfbærrar þróunar sem endurspeglast í því göfuga starfi sem mannauðurinn leggur á sig dag hvern og á hann mikið lof skilið fyrir framlag sitt. 

 

Það eru breyttir tímar fram undan en í breytingum felast í senn áskoranir og tækifæri. Mannvit mun vinna af heilum hug og halda áfram að nýta þær auðlindir sem fyrir eru til hagsbóta fyrir umhverfið í heild sinni.